Um artFart

artFart er listahátíð sem haldin er árlega í Reykjavík af Sambandi ungra sviðlistamanna. Hátíðin samanstendur af sýningum, listviðburðum, fyrirlestrum og vinnustofum sem hafa það að markmiði að efla nýsköpun og styðja við tilraunamennsku í íslenskri sviðslist. artFart verður haldin í fimmta skipti 5. – 22. ágúst 2010.

Hátíðin er fyrst og fremst vettvangur fyrir unga og upprennandi listamenn til að koma list sinni á framfæri en á artFart má einnig finna fyrirlestra, vinnustofur og almenn hátíðahöld.  Þeim er ætlað að virkja umræðu um form og mikilvægi sviðslista hér heima og heiman og leita leiða til samstarfs milli listforma ásamt því að veita listafólkinu sjálfu tækifæri til þess að kynnast og læra hvort af öðru. Annað af markmiðum hátíðarinnar er að bjóða upp á og kynna gesti fyrir framsæknum og nýstárlegum sýningum á viðráðanlegu verði og sýna þannig upp á margbreytileika sviðslistaformsins sem er í örum vexti hér á landi. artFart er hátíð í stöðugri þróun og skapast einkenni hennar á hverju ári af þeim verkum sem taka þátt á hátíðinni. artFart hefur ekki beina og ákveðna listræna stjórnun sem velur inn verk heldur er öllum leyft að taka þátt, svo framarlega sem verkið er lifandi viðburður, umsókn til þáttöku sýni fram á skýra hugmynd og að aðstandendur þess séu í háskálanámi eða hafa lokið námi í sviðslistum.Leiklistin er dauð. Lengi lifi leiklistin.

Hlutverk artFart

artFart útvegar sýningarhúsnæði þar sem grunntækjabúnaður er til stöðu. Einnig hefur artFart yfirumsjón með dagskrá og miðasölu ásamt því að útbúa kynningarefni og auglýsa hátíðina eftir bestu getu. Með kynningarefni er átt við útprentað dagskrárrit, dreifildi og boli. Dagskráin verður svo auglýst í helstu prentmiðlum. artFart getur ekki launað þátttakendum né styrkt verk fjárhagslega en 80% af miðasölu verkanna renna hins vegar beint til listamannanna sjálfra meðan 20% rennur til reksturs artFart á næsta ári.

Aðstandendur

Alexander Graham Roberts
Alexander er útskrifaður frá Rose Bruford Collage, European Theater Arts Degree. Hann vinnur þessa stundina sem leiklistargagnrýnandi  og blaðamaður við Total Theatre Magazine og er meðlimur í leikhópnum The Fiasco Division. Alexander er listrænn stjórnandi The Public Space Programme sem fer fram í fyrsta skipti á artFart nú í ár.

Arna Ýr Sævarsdóttir
Arna stundar nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Hún hefur mikla reynslu af viðburðastjórnun og starfar í hlutastarfi hjá fyrirtækinu Practical. Hún útskrifaðist frá Listdansskóla Íslands af nútímadansbraut árið 2005 og stundaði nám við The London Contemporary Dance School 2005-2006.

Ásgerður G. Gunnarsdóttir
Ásgerður er einn af stofnaðilum artFart. Hún stundar nú meistaranám við Hagnýta
menningarmiðlun við Háskóla Íslands. Hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands, af Fræði og framkvæmd árið 2009. Hún er einnig með diplómu í samtímadansi frá sama skóla, auk þess sem hún er með diplómu frá nútímadansdeild Listadansskóla Íslands. Hún er meðlimur í danshópnum Íslenska hreyfiþróunarsamsteypan.

Sigurður Arent Jónsson
Sigurður er nýútskrifaður af Contemporary Performance Practice við Royal Scottish
Academy of Music and Drama í Glasgow. Hann er einn af stofnaðilum artFart. Hann er einnig einn af listrænum stjórnendum The Public Space Programmes sem fer fram í fyrsta skipti á artFart nú í ár.

Auglýsingar